Miðvikudagskvöldið 30. september 2009 fór fram sameiginleg æfing slökkviliða á Snæfellsnesi, æft var í Grundarfirði. Starfsmenn Eldstoða ehf tóku þátt í að undirbúa og fylgjast með æfingunni. Æft var slökkvistarf í tveggja hæða sérbýli þar sem reykkafarar fóru inn í reykfyllt húsið til leitar að fólki, þar var m.a. manni bjargað með því að koma honum út á svalir og þaðan niður stiga sem reistur hafði verið við svalirnar. Slökkvilið Grundarfjarðar kallaði strax eftir aðstoða frá nágrannaslökkviliðum á nesinu sem brugðust skjótt við og komu tveir fullmannaðir dælubílar frá Snæfellsbæ og einn fullmannaður frá Stykkishólmi.
Meðan slökkvi- og björgunarstarfið í húsinu var í fullum gangi kom útkall í skip sem lá við bryggju. Var fullmönnuð dælubifreið send á staðinn og fór fram leit í skipinu að manni sem að sögn átti að vera í vélarúmi skipsins.
Síðan voru höfð mannaskipti þannig að allir reykkafarar köfuðu á báðum stöðum. Æfingin var sett þannig upp að hún reyndi á stjórnun aðgerða og samæfingu manna. Í reykköfuninni var hrært upp í mannskapnum þannig að það var tilviljun sem réði því hverjir fóru saman inn.
Æfingunni lauk síðan með björgun úr bílflökum eftir árekstur tveggja bifreiða. Tveir menn voru í öðrum en einn í hinum. Við áreksturinn hafði önnur bifreiðin oltið á hliðina.
Við björgun úr bílflökum vann Snæfellsbær með annan bílinn og Stykkishólmur með hinn. Grundfirðingar sem því miður hafa ekki björgunartæki til umráða aðstoðuðu við báða bílana og óþjálfaðir menn fylgdust með.
Í heildina gekk æfingin nokkuð vel en það hefði þurft aðeins meiri tíma í hana. Segja má að um skipulagt kaos hafi verið að ræða og ólíklega atburðarás sem gæti þó komið upp. Slökkviliðsmenn sýndu hvað í þeim býr og stóðu sig allir vel. Það má margt læra af svona samæfingum og fullt af atriðum sem hægt er að bæta með því að ræða saman og æfa sérstaklega.
Starfsmenn Eldstoða ehf. þakka fyrir sig og þakka slökkviliðsmönnum fyrir samstarfið.