Slökkvikerfi

Flest slökkvikerfi eru sjálfvirk sem þýðir að þau fara í gang annaðhvort við boð frá viðvörunarkerfi (hita-eða reykskynjarar) eða bræðivar á stút gefur sig við fyrirfram ákveðið hitastig. Í sumum tilfellum þarf hvorutveggja að koma til, dæmi um það eru forhlaupskerfi sem eru ein tegund vatnsúðakerfa. Einnig á að vera hægt að ræsa sum þessara kerfa handvirkt.

Vatnsúðakerfi

Vatnsúðakerfi geta haft áhrif á ákvörðun um leyfilegan fjölda fólks í byggingu. Ef saman fara vöktuð bruna- og vatnsúðakerfi, reykhólfun og reykræsing auk góðra flóttaleiða má reikna með að leyfi hafi fengist fyrir verulegum fjölda fólks í viðkomandi byggingu.

Margar gerðir eru til af vatnsúðakerfum og fer val á þeim eftir gerð bygginga, starfsemi og brunaálagi.

vatnsudakerfi01

Algengustu kerfin eru:

  • blaut kerfi, þar sem ávalt er vatn í lögnum að stút,
  • þurr kerfi, þar sem lagnir eru fylltar með lofti frá loftdælu í klefa kerfisins og
  • forhlaupskerfi, þar sem lagnir eru þurrar þar til brunaviðvörunarkerfi hleypir vatninu inn á þær.

Öryggi bæði fólks og mannvirkis eykst til muna ef sjálfvirkt vatnsúðakerfi er til staðar. Kerfið slekkur eld á byrjunarstigi, eða heftir útbreiðslu hans þar til slökkvilið kemur á staðinn. þannig kemur vatnsúðakerfið í veg fyrir verulegt tjón af völdum hita og reyks.

Það er útbreiddur misskylningur að vatnsúðakerfi geti valdið verulegum vatnsskemmdum þar sem margir telja að vatn komi úr öllum stútum þess þegar kerfið fer í gang. Sannleikurinn er hins vegar sá að bræðivör eru á stútum þeirra kerfa sem lögð eru í venjulegar byggingar. Bræðivörin gefa sig við fyrirfram ákveðið hitastig og opnast sá stútur því fyrstur sem er staðsettur næst eldinum og síðan koll af kolli ef eldurinn breiðist út, sem hann ætti ekki að gera ef  rétt er að verki staðið við hönnun og umgengnisreglur eru virtar.

Sjálfvirk vatnsúðakerfi eru öruggasta leiðin til að koma í veg fyrir stórtjón af völdum bruna. Húseigendur eru hvattir til að skoða þennan valkost í byggingar sínar.

Sjá nánar reglugerð um hönnun og uppsetningu sjálfvirkra úðakerfa nr.245/1994.

Afkastamikil vatnsúðakerfi eru í Smáralind

Afkastamikil vatnsúðakerfi eru í Smáralind

Gasslökkvikerfi

Gasslökkvikerfi eru algeng þar sem verja á minni rými og vatn er talið vera óæskilegt sem slökkviefni. Eftir að halon var bannað hafa skotið upp kollinum ýmsar nýjar tegundir slíkra kerfa og eru flest þeirra umhverfisvæn.

Dæmi um gaskerfi sem eru í notkun hér á landi:

§  Inergen inniheldur Köfnunarefni og Argon nánast til helminga, og er smá koltvísýringi bætt við blönduna til að örfa öndun hjá fólki sem kann að vera statt í rýminu þegar efnið streymir inn í það. Slökkviefnið á að lækka súrefnisinnihald andrúmsloftsins niðurfyrir 15% til að kæfa loga.

§  Argonite er blanda af Köfnunarefni og Argoni til helminga en inniheldur ekki Koltvísýring. Argonite er líkt Inergeni hvað slökkvimáttinn varðar.

§  Novec 1230 er eitt af þeim slökkviefnum sem eiga að koma í stað halonkerfanna. Þetta efni mun vera skaðlaust. Efnið er í vökvaformi og er hellt á flöskurnar til áfyllingar. Það gufar upp við stofuhita. Við fasaskiptin þenst efnið mikið.

Önnur slökkvikerfi

Ekki verður farið í nákvæma útlistun á kerfunum heldur aðeins minnst á mismunandi tegundir og við hvaða aðstæður þær henta best. Ekki eru heldur talin upp öll þau slökkviefni og kerfi sem boðið er uppá hér á landi en varast ber að fjárfesta í kerfum sem ekki hafa hlotið viðurkenningu Brunamálastofnunar.

Nokkuð er um að slökkvikerfi séu sett upp í atvinnueldhúsum. Kerfin eru fyrirferðalítil og slökkviefnið virkar vel á eld í feiti.

This entry was posted in Brunavarnir bygginga and tagged . Bookmark the permalink.

Leave a Reply